Boston fjölskyldan

Nokkur orð um lífið í Back Bay Boston

þriðjudagur, júlí 31, 2007

Búmba! 35vikur


Það er aldeilis farið að síga á seinni hlutann hjá mér og bumba litla, það er farið að þrengja vel að litla manninum og rifbeinin mín þurfa að snúa vörn í sókn ef þau ætla að komast óbrotin í gegnum síðustu vikurnar. Grindin hefur verið nokkuð þæg upp á síðkastið enda hef ég verið dugleg að passa mig og beita mér rétt með örfáum undantekningum. Er byrjuð í meðgöngujóga sem er algjör unaður: róandi tónlist, teygjur, hugleiðsla og svo nuddpotturinn á eftir, er hægt að biðja um það betra. Er búin að skila inn fæðingarplaninu mínu til ljósmóðurinnar, það var ekki langt enda er planið að hafa þetta ekkert of langt.

Ég er komin á gott skrið með lokaverkefnið, forritið er komið til leiðbeinendanna í beta prófun og vona ég bara að ég fái feedback sem fyrst þar sem ég er í soddan kappi við tímann að klára þetta fyrir fæðingu.

Hrafnkell er ávallt í banastuði og virðist njóta þess ágætlega að vera fastur með gamla settinu alla daga. Það var hringt í okkur frá leikskólanum hans og okkur tilkynnt að það væri laust pláss 2 daga í viku í Toddler 1 sem er sama deild og hann var á í vor, þvílíkar gleðifréttir að hann komist aftur til sömu fóstra og krakka sem hann þekkir. Uppáhaldsorðin hans eru ennþá amma og afi, og bókin sem við keyptum í Leifstöð sem heitir einmitt: "Hjá afa og ömmu" er búin að vera í miklu uppáhaldi síðan við komum aftur til Boston. Hann er allur að verða fullorðinn og sjálfbjarga, borðar fiskinn sinn aleinn með gaffli og drekkur mjólkina sína úr glasi. En milli þess að verða fullorðinn heldur hann áfram að kanna heiminn á sinn eigin hátt, um daginn setti hann samfelluna yfir hausinn og reyndi að bíta í melónu í gegnum efnið.. og svo er líka sniðugt að hella úr mjólkurglasinu á borðið og sulla í mjólkurpollinum og búa til flott mynstur!

Við neyddumst til að fá okkur internet, þjófnaðurinn var ekki lengur nógu áreiðanlegur, skelltum okkur því á svona þrípakka, internet, háskerpusjónvarp og heimasíma. Þetta er svosem ekki fásögu færandi nema fyrir það að með háskerpuboxinu fylgir "on demand" sjónvarpsefni, alls kyns þættir og bíómyndir sem hægt er að horfa á frítt eftir pöntunum. Þetta höfum við nýtt fyrir Hrafnkel þar sem úrvalið af barnaefni er með eindæmum. Klukkan 6 í kvöld var komið að barnatíma fyrir Hrafnkel, pabbinn sest með syninum fyrir framan skjáinn og ákveður að velja eitthvað nýtt og spennandi fyrir aðalprinsinn. Sponge Bob Squarepants verður fyrir valinu, öðru nafni: Svampur Sveinson, en það var ekki betra val en svo að eftir nokkrar mínútur kallar Gummi á mig, gáttaður situr hann með Hrafnkel í fanginu, þegar ég var búin að horfa á skjáinn í nokkrar sekúndur var ég farinn að hrópa á Gumma: Slökktu á tækinu! Slökktu á tækinu! Og á meðan horfði ég á son minn furðu lostinn með augun límd í átt að sjónvarpinu sem mér fannst vera að eitra huga hans meira með hverri sekúndu sem leið. Í sjónvarpinu var Górilla, (nota bene þetta var leikið atriði ekki teiknimynd) sem hafði tekið tvo vini hans Svamps Sveinssonar og sett þá í brúnan hermannapoka, lokað vel fyrir og svo byrjaði górillan barasta að kíla pokann á fullu, eftir miklar kílingar byrjar górillan að hoppa á pokanum.. ekki fannst górillunni það nóg svo hún nær í stól og fer að berja pokann á alla kanta með stólnum, og já af öllu afli!! Þetta verður seint gleymt og fær mann til að íhuga bréfasendingu til Nick Jr. stöðvarinnar sem sér um útsendingar á þessu sjónvarpsefni. Þannig að skilaboð mín til foreldra nær og fjær, Horfið með börnunum ykkar.
yfir og út

föstudagur, júlí 20, 2007

Ad ramba

mánudagur, júlí 16, 2007

Amma, Afi og hundur undir borði

Allan daginn út og inn segir Hrafnkell bara amma, amma, amma og svo afi, afi, afi, ég held hann sé ekki að átta sig á því af hverju við förum ekki lengur í heimsókn í garðinn til ömmu í Hafnarfirðinum eða í heita pottinn hjá ömmu og afa í Grafarholtinu, held hann sé pent að biðja um að fara í heimsókn.
Við reynum okkar besta til að segja við hann að amma og afi séu á Íslandi en þau komi bráðum í heimsókn. Nýlega rammaði ég inn myndir af öllum nánustu ættingjunum á Íslandi og við æfum okkur daglega í hverjir allir eru, oft virðist hann nú vera með flesta á hreinu, en svo koma stundir þar sem, ég segi: hvar er afi? Og þá bendir hann á Öldu, og svo þegar ég spyr um ömmu þá bendir hann aftur á Öldu, þ.a annað hvort þekkir hann flesta eða þá allir eru Alda.

Eftir Íslandsför er Hrafnkell orðinn mikið matargat, borðar fisk, kjúkling og grænmeti með bestu lyst, okkur til mikllar gleði, en nýlega tók hann upp á því við matarborðið að stinga einum matarbita upp í sig og svo henti hann einum undir borð, einn í munn, einn undir borð, samt vildi hann meira og meira á diskinn, það var ekki eins og hann væri orðinn saddur, mig grunar að hann eigi ímyndaðan hund sem hann heldur að sé undir borðinu. Til fróðleiks þá borðar hundurinn agúrku og kjúkling..

Það er einnig voða sport þessa dagana að rölta um með fótaskemil sem við keyptum handa Hrafnkeli í vor, hann röltir með hann um alla íbúð, stillir honum upp við alls kyns borð og hillur til að fá betra útsýni yfir hlutina, hann er að vonum mjög montinn með þessa nýju uppgötvun sína um skjótfengna hækkun.

Höfum fjárfest í vöggu, við fátæku stúdentarnir höfum uppgötvað hinn merkilega heim notaðra vara, þar er ekki einungis hægt að spara heldur líka græða, þar sem hægt er að fá vörur svo ódýrt að maður er öruggur um að geta selt viðkomandi vöru dýrari en maður keypti hana á þegar til þess kemur.

Vaggan sem við keyptum á $35 (2000kr) "A total steal" eins og kaninn segir..


Að klappa bulldog í Sparrow Park, með Elfu og Tómasi (1árs síðan í júlí)

Buslað í South Garden, Prudential center, sólríkur garður undir berum himni í miðju molli.

miðvikudagur, júlí 11, 2007

Taste of Iceland

Það eru búnir að vera svokallaðir "Taste of Iceland" dagar hér í Boston, bæði hafa einstaka veitingastaðir boðið upp á íslenskan mat, skemmtistaðir verið með íslenska tónlistarmenn og svo bauð Carberry's bakaríið í Cambridge upp á íslenskt bakkelsi, vínarbrauð, snúða og annað gúmmelaði. Við létum þetta nú allt fram hjá okkur fara nema bakkelsið auðvitað.. sökum góðra gesta. Mikið rétt, heitustu uppar íslands heiðruðu okkur með nærveru sinni síðustu 5 næturnar, þessir uppar sættu sig náttlega ekkert við háklassa sænska IKEA svefnsófann okkar og kusu frekar King Size ameríku rúm á einu af fimm stjörnu hótelunum hér í kring. Pew!! segir maður nú bara..

En upparnir okkar voru frekar rólegir í tíðinni miðað við síðustu heimsókn þeirra hingað í borg verslunar-íslendinga, mætti helst halda að þau hafi látið sprauta sig niður áður en þau létu sig sökkva ofan í dúnmjúk Saga Class sætin í Keflavík, því svo dræm var verslunargleði þeirra að undir lokin var Guðmundur hinn mikli farinn að hlaupa með vörur til og frá rekkum til að reyna að freysta og jafnvel endurvekja gamlar verslunarglæður, en allt kom fyrir ekki og upparnir flugu heim í dag með ekki meira en sitthvor Prada sólgleraugun á enninu og einn Bumbó stól undir hendi.

Síðustu dagar hafa því farið í matarát, vatnsdrykkju og nokkur Kana-spil, hvað er svosem annað hægt í landi kanans, annars var hrikalaega sárt að kveðja Ósk og Inga í dag vitandi um allt sem á eftir að gerast næsta árið áður en við hittumst aftur. En við getum ekki annað en samgleðst Markúsi litla að vera búin að fá foreldrana sína heim aftur.
Var ekki örugglega Bumbó á óskalistanum þínum Markús? ... ekki.. nú kannski mamma þín leyfi þér þá bara að leika með nýju sólgleraugun sín..

Íslenskt bakkelsi

Á röltinu

Sýnishorn af nýju íbúðinni

Pedicure..

Fótanudd..

Óléttínur að kasta mæðinni..

Taste of "Tossed" salati á nýju rúmgóðu svölunum okkar

Fresh strawberry cheescake

Óléttínur skála í óáfengum bjór á "Top of the Hub"

Mafían

"Far vel" góðu vinir, við söknu ykkar!