Boston fjölskyldan

Nokkur orð um lífið í Back Bay Boston

mánudagur, júlí 16, 2007

Amma, Afi og hundur undir borði

Allan daginn út og inn segir Hrafnkell bara amma, amma, amma og svo afi, afi, afi, ég held hann sé ekki að átta sig á því af hverju við förum ekki lengur í heimsókn í garðinn til ömmu í Hafnarfirðinum eða í heita pottinn hjá ömmu og afa í Grafarholtinu, held hann sé pent að biðja um að fara í heimsókn.
Við reynum okkar besta til að segja við hann að amma og afi séu á Íslandi en þau komi bráðum í heimsókn. Nýlega rammaði ég inn myndir af öllum nánustu ættingjunum á Íslandi og við æfum okkur daglega í hverjir allir eru, oft virðist hann nú vera með flesta á hreinu, en svo koma stundir þar sem, ég segi: hvar er afi? Og þá bendir hann á Öldu, og svo þegar ég spyr um ömmu þá bendir hann aftur á Öldu, þ.a annað hvort þekkir hann flesta eða þá allir eru Alda.

Eftir Íslandsför er Hrafnkell orðinn mikið matargat, borðar fisk, kjúkling og grænmeti með bestu lyst, okkur til mikllar gleði, en nýlega tók hann upp á því við matarborðið að stinga einum matarbita upp í sig og svo henti hann einum undir borð, einn í munn, einn undir borð, samt vildi hann meira og meira á diskinn, það var ekki eins og hann væri orðinn saddur, mig grunar að hann eigi ímyndaðan hund sem hann heldur að sé undir borðinu. Til fróðleiks þá borðar hundurinn agúrku og kjúkling..

Það er einnig voða sport þessa dagana að rölta um með fótaskemil sem við keyptum handa Hrafnkeli í vor, hann röltir með hann um alla íbúð, stillir honum upp við alls kyns borð og hillur til að fá betra útsýni yfir hlutina, hann er að vonum mjög montinn með þessa nýju uppgötvun sína um skjótfengna hækkun.

Höfum fjárfest í vöggu, við fátæku stúdentarnir höfum uppgötvað hinn merkilega heim notaðra vara, þar er ekki einungis hægt að spara heldur líka græða, þar sem hægt er að fá vörur svo ódýrt að maður er öruggur um að geta selt viðkomandi vöru dýrari en maður keypti hana á þegar til þess kemur.

Vaggan sem við keyptum á $35 (2000kr) "A total steal" eins og kaninn segir..


Að klappa bulldog í Sparrow Park, með Elfu og Tómasi (1árs síðan í júlí)

Buslað í South Garden, Prudential center, sólríkur garður undir berum himni í miðju molli.

1 Comments:

At 19/7/07 15:35, Anonymous Nafnlaus said...

Hæ hæ elskurnar, en þið sniðug að setja upp myndaalbúm af liðinu. Þeim finnst líka svo gaman að skoða myndirnar. Helgi er t.d. alltaf að skoða myndaalbúm síðan hann var lítill og svo vill hann alltaf vera að skoða Leikskólamynd af öllum á deildinni, og reynir þá að segja mér hvað allir krakkarnir heita.

Flott nýja vaggan, ég spái því að þið fáið 10 þús fyrir hana þegar þið setjið á sölu á klakanum.

Hafið það gott og já til hamingju með nýju stóru íbúðina :)

kneus
helgs og co

 

Skrifa ummæli

<< Home