Búmba! 35vikur
Það er aldeilis farið að síga á seinni hlutann hjá mér og bumba litla, það er farið að þrengja vel að litla manninum og rifbeinin mín þurfa að snúa vörn í sókn ef þau ætla að komast óbrotin í gegnum síðustu vikurnar. Grindin hefur verið nokkuð þæg upp á síðkastið enda hef ég verið dugleg að passa mig og beita mér rétt með örfáum undantekningum. Er byrjuð í meðgöngujóga sem er algjör unaður: róandi tónlist, teygjur, hugleiðsla og svo nuddpotturinn á eftir, er hægt að biðja um það betra. Er búin að skila inn fæðingarplaninu mínu til ljósmóðurinnar, það var ekki langt enda er planið að hafa þetta ekkert of langt.
Ég er komin á gott skrið með lokaverkefnið, forritið er komið til leiðbeinendanna í beta prófun og vona ég bara að ég fái feedback sem fyrst þar sem ég er í soddan kappi við tímann að klára þetta fyrir fæðingu.
Hrafnkell er ávallt í banastuði og virðist njóta þess ágætlega að vera fastur með gamla settinu alla daga. Það var hringt í okkur frá leikskólanum hans og okkur tilkynnt að það væri laust pláss 2 daga í viku í Toddler 1 sem er sama deild og hann var á í vor, þvílíkar gleðifréttir að hann komist aftur til sömu fóstra og krakka sem hann þekkir. Uppáhaldsorðin hans eru ennþá amma og afi, og bókin sem við keyptum í Leifstöð sem heitir einmitt: "Hjá afa og ömmu" er búin að vera í miklu uppáhaldi síðan við komum aftur til Boston. Hann er allur að verða fullorðinn og sjálfbjarga, borðar fiskinn sinn aleinn með gaffli og drekkur mjólkina sína úr glasi. En milli þess að verða fullorðinn heldur hann áfram að kanna heiminn á sinn eigin hátt, um daginn setti hann samfelluna yfir hausinn og reyndi að bíta í melónu í gegnum efnið.. og svo er líka sniðugt að hella úr mjólkurglasinu á borðið og sulla í mjólkurpollinum og búa til flott mynstur!
Við neyddumst til að fá okkur internet, þjófnaðurinn var ekki lengur nógu áreiðanlegur, skelltum okkur því á svona þrípakka, internet, háskerpusjónvarp og heimasíma. Þetta er svosem ekki fásögu færandi nema fyrir það að með háskerpuboxinu fylgir "on demand" sjónvarpsefni, alls kyns þættir og bíómyndir sem hægt er að horfa á frítt eftir pöntunum. Þetta höfum við nýtt fyrir Hrafnkel þar sem úrvalið af barnaefni er með eindæmum. Klukkan 6 í kvöld var komið að barnatíma fyrir Hrafnkel, pabbinn sest með syninum fyrir framan skjáinn og ákveður að velja eitthvað nýtt og spennandi fyrir aðalprinsinn. Sponge Bob Squarepants verður fyrir valinu, öðru nafni: Svampur Sveinson, en það var ekki betra val en svo að eftir nokkrar mínútur kallar Gummi á mig, gáttaður situr hann með Hrafnkel í fanginu, þegar ég var búin að horfa á skjáinn í nokkrar sekúndur var ég farinn að hrópa á Gumma: Slökktu á tækinu! Slökktu á tækinu! Og á meðan horfði ég á son minn furðu lostinn með augun límd í átt að sjónvarpinu sem mér fannst vera að eitra huga hans meira með hverri sekúndu sem leið. Í sjónvarpinu var Górilla, (nota bene þetta var leikið atriði ekki teiknimynd) sem hafði tekið tvo vini hans Svamps Sveinssonar og sett þá í brúnan hermannapoka, lokað vel fyrir og svo byrjaði górillan barasta að kíla pokann á fullu, eftir miklar kílingar byrjar górillan að hoppa á pokanum.. ekki fannst górillunni það nóg svo hún nær í stól og fer að berja pokann á alla kanta með stólnum, og já af öllu afli!! Þetta verður seint gleymt og fær mann til að íhuga bréfasendingu til Nick Jr. stöðvarinnar sem sér um útsendingar á þessu sjónvarpsefni. Þannig að skilaboð mín til foreldra nær og fjær, Horfið með börnunum ykkar.
yfir og út
5 Comments:
Vúhúúú gaman að sjá bumbumynd af þér!! Þú lítur ekkert smá vel út!
Birkir og Ásdís horfa sjaldnast á barnatímann í sjónvarpinu, en eiga Skoppu og Skrítlu, Söngvaborg og Bubbi byggir á DVD. Þetta er allt hið ljúfasta efni enda finnst mér fáránlegt að matreiða e-n óþverra ofan í lítil börn.
Vonandi færðu feedback á forritið sem fyrst!
Hahahahahaha fyndin lýsing. Vona að hann Keli litli hljóti ekki varanlegan skaða af þessu eða fari að hegða sér svona þegar þið eruð að lúra undir sæng...maður veit aldrei en þetta er að sjálfsögðu stöðinni ekki til fyrirmyndar.
Við settum Andreu smá fyrir framan sjónvarpið um daginn og aftur í dag og hún situr í bumboinum sínum og hlær og slær höndunum í stólinn, alveg svaka fjör. Hún fékk að horfa smá á baby channel en ég held ég ætli ekki að leyfa henni að horfa meir fyrr en hún verður aðeins stærri.
Allavega Gap pöntunin er að verða til og svo ætla ég líka að taka target á þetta.
Jii hvað það er stutt eftir, bara rétt mánuður. Gaman að sjá svona bumbumynd og ég tek undir með Eyrúnu að þú lítur stórglæsilega út Magga!
Já það ber að varast þetta barnaefni. Ég skammast mín nú fyrir að segja þetta en stundum horfum við familían saman á Simpson sem er nú ekki beint barnaefni. Nema að Rakel hefur lítið sem ekkert verið að horfa, frekar bara að leika fyrir framan TV en eitt skiptið sat hún alveg stjörf fyrir framan einn þátt og það var ekki fallegra en svo að Marge var að skera köku og Hómer var að sniglast með puttana í kökunni (reyna að ná í sneið) og hún skar óvart þumalinn af honum og blóðið spýttist í allar áttir. Rakel var þvílíkt um of og er enn að tala um þetta, þvílíkir foreldrar *roðn*.
Kveðja, Íris og co
Hryllilega flott bumba!!!
Ótrúlega líður þetta hratt, þú bara alveg að verða búin!
Sem betur fer hefur Bjarnheiður meira gaman að dýralífsþáttum en teiknimyndum -ennþá...
Eins gott að vera með það á hreinu hvað þau eru að sjá í sjónvarpinu og ekki að treysta blint á þar til gert barnaefni.
Bestu kveðjur frá Edinborg!
(stórt knús frá Bjarnheiði til Krúttkels)
Elsku Maggi massi!!! Vá hvað þú lítur vel út!
Ég bara bíð eftir bókinni sem þú gefur út Magga mín því penni ertu!
Knús og klemm
Björg
Skrifa ummæli
<< Home