Ný íbúð, barnapíuleit og sveitaferð
Við höfum skrifað undir samninginn á nýju íbúðinni sem inniheldur hvorki meira né minna en 2 svefnherbergi og auðvitað þvottavél og þurrkara inni í íbúð, er hægt að biðja um það betra.
Þessi íbúð er í sama stigagangi og við erum núna og meira að segja á sömu hæð, þeir sem hafa verið svo frægir að koma í heimsókn til okkar geta séð þetta fyrir sér, en nú frá og með 17.júní göngum við inn í íbúðina til hægri um leið og komið er inn um aðalinngang en eins og er göngum við til vinstri. Þessi íbúð hefur glugga bæði framan og að aftan þ.a við höfum bæði útsýni yfir fallegu litlu götuna okkar og ennþá munum við geta fylgst með bílastæðavörðunum á fitz inn bílastæðinu ásamt öllum hinum ferðamönnunum sem eru á leiðinni á Hilton og Sheraton hótelið.
Hef verið í barnapíu leit síðustu daga, skráði auglýsingu á þekktan barnapíuvef www.citysitter.com og við höfum fengið um 38 umsækjendur og talan fer stækkandi, líst vel á 3 eins og er og ætla að taka viðtal við þær, þessar þrjár eru allar í sama skóla og ég, þær uppfylla allar skilyrðið mitt að þær urðu að vera með CPR.
En við þurfum barnapíu til að komast út á kvöldin í júlí og ágúst því maður verður víst að nýta sér það til fullnustu að borða úti undir berum himni.
Svo þurfum við 1-2 virka daga í viku næsta vetur líka sökum extra álags barns nr.2.
En Mammsan mín er barasta að koma á morgun miðvikudag, ótrúlegt en satt, við ætlum að skella okkur í sveitaferð til Ithaca, þar munum við taka undir okkur íbúðina hans Begga bró og fylgjast með honum setja upp skikkju og hatt með dúsk ásamt samnemendum.
Það verður hrikalega gott að komast út í náttúruna, er alveg að fara að breytast í malbik hér í borginni, heyrst hefur af grasi, fossum og fjöldanum öllum af íkornum þarna í Ithaca sem á eflaust mikið eftir að gleðja lítinn stubb.
Fórum á ljósmæðrafund upp á spítala í gær með fullt af öðrum bumbum, mesta sport fundarins var að heimsækja fæðingarstofuna og sængurlegustofuna, við vorum einstaklega hrifin af þessu öllu saman, allt einkastofur þ.a engin sláturhúsafílingur hér á ferð. Öll herbergin eru með baði nema eitt en það er bara með sturtu þ.a líkurnar eru góðar á því að fá bað.
Erum búin að segja upp leikskólanum hans Hrafnkels, næstsíðasti dagurinn hans er í dag og sá síðasti næsta þriðjudag, en sóttum um aftur fyrir hann fyrir haustið. Hann elskar leikskólann þessa dagana enda eru þau svo mikið úti og þar sem hann er alltaf úti þegar við náum í hann þurfum við að bera hann grátandi út í bíl, hann verður svo sár að þurfa að hætta að leika.
Jæja best að halda áfram að læra meðan gríslingur er í gæslu.
Yfir og út
