Vaxtasónar 39vikur+2dagar
Ljósmóðirin mín sendi mig í vaxtasónar á fimmtudag, hún hafði áhyggjur af því að litli kútur gæti verið stór, eða stærri en stóri bró, þar sem henni fannst Hrafnkell hafa fæðst frekar stór 3950g (tæpir 16 merkur). Ef komið hefði í ljós að hann gæti hugsanlega verið pundi stærri (454g), þá ætlaði hún að mæla með keisara á þeim forsendum að Hrafnkell viðbeinsbrotnaði í fæðingu. En sem betur fer var litli kútur ekki mældur það stór og því bíðum við bara eftir því að hann ákveði sjálfur hvenær hann sé tilbúinn til að koma í heiminn. Hrafnkell og Gummi komu með inn í sónarinn og Hrafnkell var ekki í neinum vafa yfir því hvað skjárinn sýndi, um leið og hann sá litla bróðir birtast á skjánum hrópaði hann og benti: "skjabaka" jamm það er s.s enginn litli bróðir í bumbunni lengur heldur skjaldbaka.
Hef verið með fyrirvaraverki á kvöldin, annars er allt mjög rólegt bumbulega séð.
Vinnan við lokaverkefnið heldur áfram og ég er farin að sjá meira fyrir endann á því en nokkru sinni fyrr.
Í næstu viku byrja svo allir í skólanum, líka Hrafnkell fórum með hann í aðlögun fyrr í vikunni og það komu auðvitað nokkur tár en meiri gleði sem betur fer.
Inigbjörg systir, Árni og Andrea voru hér í nokkra daga um daginn, það var virkilega gaman að hafa þau, sérstaklega hafði Hrafnkell gaman og gott af því að vera í kringum Andreu prímadonnu svona rétt til að æfa sig fyrir komu litla brós. En það var frekar erfitt að kveðja þau þar sem margir mánuðir líða áður en við hittum þau næst. Ingibjörg og Árni breytast kannski ekki mikið en Andrea litla mun breytast úr infant í toddler hlaupandi og jafnvel talandi.