Hrafnkell skrifar...
Sæl öll,
það er alveg kominn tími á það að ég yfirmaður heimilisins skrifi eitthvað á þetta blessaða blogg þar sem þetta eru nú aðalega aðdáendur mínir sem stoppa hér við.
Mig langar að segja ykkur stuttlega frá síðustu dögum í mínu afdrifaríka lífi.
Síðasta miðvikudag fékk ég í fyrsta sinn að gista heima hjá vini mínum honum Rhodes sem býr í götunni minni. Mamma og pabbi röltu með mér yfir um 7 leytið Pat og Amber mamma og pabbi Rhodes tóku á móti mér, ég bjóst nú ekki við að hitta Amber því hún átti að vera í skólanum til 9:30 en þegar hún tók á móti mér opnum örmum sagðist hún hafa skrópað í skólann til að missa ekki af þessu einstaka tækifæri að fá að passa mig. Ég hljóp beint inn til Rhodes og fór að leika í þrusu skemmtilega dótinu hans. Ég var alveg eins og engill allt þangað til ég sofnaði um hálf níu leytið. Þegar Mamma og pabbi komu svo og sóttu mig um eitt leytið um nóttina þá heyrði ég í gegnum svefnrofann að Pat og Amber voru þvílikt að hrósa mér fyrir tónlistargáfu mína, ég var nefnilega duglegur að sýna þeim snilli mína á píanóinu.
Undanfarið hef ég verið soldið latur að borða kvöldmatinn minn en svo gróf mamma upp íslenskt lambakjöt í frystinum og eldaði fyrir mig kjötsúpu sem ég borðaði með bestu lyst og meira að segja nokkrar skeiðar aleinn ef mamma fyllti hana fyrir mig.
Eftir það hef ég verið duglegur að borða þorskinn og laxinn minn og þá fæ ég líka eftirrétt í verðlaun, hálfann banana eða mangó namminamm. En uppáhaldsmaturinn minn er samt pastaskrúfur í pastasósu ala Markús, það borða ég líka aleinn með alvöru gaffli og guðsgöflunum til skiptis.
Ég er alltaf að benda á hluti og þá eiga allir að segja mér hvað hlutirnir heita, geri þetta sérstaklega mikið þegar ég er að lesa bækur svo er ég babblandi mína Hrafnkelsku daginn út og inn. Svo gerðist það um daginn að pabbi skrapp inn í búð meðan við mamma biðum út í bíl og svo skyndilega segir mamma við mig: Hrafnkell, við gleymdum að segja pabba að kaupa hafragraut! Meðan mamma hringir í pabba stend ég gjörsamlega á öndinni, var svo æstur að hrópa nýja orðið mitt: Haggagu! Haggagu! Haggagu! og pabbi sagði strax við mömmu er Hrafnkell að segja Hafragrautur, hann heyrði það sko í gegnum símann enda var það ætlunin hjá mér.
Svo líka um daginn þegar við fjölskyldan vorum að snæða hádegismat þá allt í einu upp úr þurru spenni ég út vísifingurinn beint í áttina að pabba og segi hátt og snjallt: Pabba! Brosti svo eins og sannur jólasveinn meðan crowdið fagnaði með þessu þvílíka klappi. Svo kann ég alveg að segja mamma nota það bara þegar mig vantar eitthvað, þá bendi ég á hlutinn og segi mamma-mamma-mamma... alveg þangað til þjónninn hlýðir.
Uppáhaldsleikföngin mín þessa dagana eru púslin mín, enda rjúka alltaf upp þessi þvílíku fagnaðarlæti þegar ég púsla en ef enginn horfir þá sé ég bara um þetta sjálfur og klappa fyrir sjálfum mér eftir hvert púsl. Ég er líka algjör kubbari og kubba með stóru kubbunum mínum turn sem er hærri en ég og nýt þess svo að henda honum í gólfið og segja daaaa (ég týndi t-inu mínu einhversstaðar).
Mér finnst líka miklu skemmtilegra ef einhver annar en mamma og pabbi klappa fyrir mér um daginn var ég svo heppinn að ég fékk klapp frá ömmu minni alla leið frá Íslandi, það var rosalegt fjör, amma horfði á mig í gegnum vefmyndavélina og svo horfði ég á ömmu í gegnum hennar vefmyndavél og hún var bara risastór á skjánum fyrir framan mig og svo púslaði ég, og alltaf klappaði amma, brjálað fjör.
Langar að enda þennann pistil á því að segja hvað mér finnst gaman að herma eftir honum pabba mínum, ef pabbi strýkur mömmu á bakið þá hleyp ég til og strýk mömmu líka á bakið, fyrir þá sem ekki vita þá er pabbi mjög hrifinn af að horfa á sig í speglinum og greiða í gegnum hárið sitt með höndunum, alltaf þegar ég lít í spegilinn inni í herbergi sem nær niður í gólf passa ég að strjúka aðeins yfir hárið mitt.
Jæja ég er búin að skrifa rosalega mikið hef fullt meira að segja en verð bara að geyma það þangað til næst. Njótið myndanna sem Amber tók af okkur Rhodes.
Knús og fruss,
Hrafnkell Árni Beetoven
posted by Hrafnkell
5 Comments:
Sæll rúsínumúsli.
Mikið var að það komu fréttir frá aðal prinsinum sjálfum´. Þú ert nú meira sætabrauðið alltaf hreint og svo gaman að fylgjast með þér.
Kveðja,
Íris og co
Síðan gleymirðu að segja frá öllu sem Lára yfirnanny og súperplatfrænka er búinn að kenna mér mamma :)
Mikið var þetta skemmtilegt elsku frændi minn, og voðalega voru mamma og pabbi góð að hleypa þér að. Ég heyri ekki á öðru en að þú sért aðalprinsinn og þú dafnir rosalega vel. Luv frá Helgu frænku þinni.
Heyrðu snúður,
Það er laust fyrir einn ryksugara heima hjá okkur. Þú lætur ljós þitt skína þegar við fáum loksins að klípa í klípilegu kinnarnar þínar þegar þú kemur í heimsókn.
Alltaf flottastur,
vá hvað þú ert fallegur
kveðja Elísa Anna og Sirrý
Skrifa ummæli
<< Home