Jæja þá er runnið upp þriðja kvöldið okkar hér í Boston og tíminn hefur aldeilis flogið! Hrafnkell var eins og engill í fluginu, steinsvaf eins og honum er einum lagið, en þegar hann vaknaði svangur lét hann alla í vélinni vita af sér, já það skal sko enginn reyna að svelta hann Hrafnkel okkar!
Þegar við komum í íbúðina okkar eftir flugið voru Tiffany's ekki heima svo við fundum lykilinn falinn undir steininum samkvæmt leiðbeiningunum, pöntuðum okkur pizzu og krúsuðum í háttinn dauðþreytt ennþá á íslenskum tíma..
Vöknuðum eldsnemma (á usa tíma) á fimmtudagsmorgun og vorum komin út í göngutúr um 9 leytið fórum í Prudential center sem er mall með frekar dýrum búðum (Saks fifth av. Lacoste oflr) það er nú ekki frásögu færandi nema hvað þegar ég valdi mér fínan bekk til að setjast niður á og gefa Hrafnkeli að drekka sest hjá okkur gömul kona með matseðil í hendinni, hún var að bíða eftir vinkonu sinni sem ætlaði að hitta hana á veitingastað við bekkinn góða. Hún var svo yfir sig hrifin af Hrafnkeli og hrópaði stöðugt upp yfir sig að Hrafnkell væri "Priceless" (ómetanlegur) ef ég hefði talið hve oft hún sagði þetta orð hefði það örugglega hlaupið á hundraði! En hún var voða næs þessi kona og þar sem vinkona hennar var ekkert að láta sjá sig og Hrafnkell orðin frekar hungraður spurði ég hana hvort það væri ekki örugglega í lagi að gefa honum brjóstið svona á almenningsbekk, þá hrópaði hún upp yfir sig í svipaðri tóntegund og hún hrópaði alltaf "Priceless" að það væri sko miklu meira en í lagi og ef einhver myndi voga sér að gefa mér illt auga þá mundi hún bara berja viðkomandi með matseðlinum! Þannig að Hrafnkell fékk að borða vel varinn af áttræðri konu með matseðil að vopni. Við spjölluðum í dágóðan tíma við þessa konu og hún gaf okkur margar gagnlegar upplýsingar, þegar vinkonan lét loks sjá sig kom á daginn að þær voru saman í MIT á sínum yngri árum. Restin af deginum fór í að leita af BestBuy búð, fundum hana loksins eftir langa göngu en keyptum ekkert sem er auðvitað bara sparnaður. En eftir daginn höfðum við þó lært eftirfarandi hluti:
1. Við verðum að sjá Mörgæsamyndina
2. Besti sjávarréttarveitingastaðurinn í Boston heitir Legal Seafoods
3. Að vera án internets er eins og að vera án hægri handleggs
4. Gummi heldur að hann rati allt
5. Gummi ratar ekki allt
6. Það borgar sig alltaf að spyrja til vegar
7. Gummi heldur ennþá að hann rati allt
Á föstudagsmorgun byrjaði ég á því að sækja langþráðu ferðavélina okkar sem Gummi lét taka frá fyrir okkur kvöldið áður en ég varð að sækja hana því ég fékk hana á spes prís þar sem ég gat sýnt fram á að ég væri í háskóla á svæðinu, $1600 (100þús ísl) IBM ferðavél af bestu sort, geri aðrir betur! Svo klukkan 13:00 hittum við brokerinn okkar til að skoða íbúðir, þar komumst við að því að íbúðir sem við megum leigja eru mjög takmarkaðar þar sem við megum ekki leigja íbúð með blýmálningu þ.a íbúðin okkar verður að vera ný eða mjög nýleg. Við urðum rosalega skotin í einni íbúð sem er í 10 mín göngfæri frá Háskólanum mínum, hún var risastór með 2 herbergjum og ég er að sannfæra Gumma um að okkur veitir ekkert af þessu rými en hún er auðvitað frekar dýr. Við munum skoða fleiri íbúðir á Laugardagsmorgun. Leigusalinn sem var ung kona keyrði okkur á milli allra íbúðanna og við spjölluðum heilmikið við hana og hún sagði okkur að Boston væri rosalega örugg borg og allt í gúddí að labba um borgina einn að kvöldi til, ekki að ég sé að fara stunda það þar sem ég er hrikalega myrkfælin hvort sem ég er í Boston eða í Reykjavík. Eftir að hafa kvatt leigusalann ákváðum við að koma við í Crate&Barrel og kaupa okkur smá jólaskraut, ég var ekki lengi að setja í körfu nokkrar gullfallegar jólakúlur, ekki þær ódýrustu, en ég vildi meira og benti Gumma á enn eina fallega en ég er greinilega með Hulk hendi þar sem kúlann skaust af standinum og beint í gólfið og mölvaðist, ég leit skömmustulega í kringum mig og þekkt setning ómaði í höfðinu á mér "If you brake you buy" (sá borgar sem brýtur) en ég virtist ekki sjá neinn sem varð vitni af þessum hroðalega atburði svo ég læddist í burtu frá brotunum, best að fara bara og borga jólakúlurnar mínar en á leiðinni á kassann rek ég þykka Hulk upphandlegginn minn í diskastand með þeim afleiðingum að diskur hlammast í gólfið, sem betur fer brotnaði hann ekki en hann byrjar að snúast á þessum ógnarhraða og myndaði í leiðinni þetta þvílíka bergmál í allri búðinni, ég í þessu þvílíka sjokki stend eins og steinn og stari á diskinn, ég þorði ekki að hreyfa legg né lið af ótta við að hrinda niður hillu ef ég svo mikið sem andaði! Meðan ég stóð og svitnaði undir húfunni og dúnúlpunni kom starfsmaður og bjargaði disknum af gólfinu og í leiðinni bergmálinu í búðinni, svo horfði hann á mig með augnarráði sem gaf til kynna að ég og Gummi værum ekki einu vitnin af jólakúluglæpnum..
Af Hrafnkeli er allt gott að frétta hann er með vott af kvefi sem hann kom með að heimann og við höfum notað saltvatnsdropana nokkrum sinnum með góðum árangri. Þegar við fórum í göngutúrinn á fimmtudag klæddum við hann í janus ullarnærfötin og stóra góða útigallann og hann kom sko sveittur upp úr vagninum þrátt fyrir Boston kuldann þ.a við erum greinilega með góð föt og góðan vagn. Hann heillar líka alla upp úr skónum sem sjá hann og fólk spyr og spyr, flestir spyrja reyndar fyrst hvort hann sé stelpa, við verðum greinilega að fara að klæða hann í meira blátt!
Jæja bless í bili frá Boston búum!
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home